Það hefur ýmislegt verið að gerast hjá Grænum Frumkvöðlum Framtíðar undanfarnar vikur. Hérna innanhúss hjá Matís var kynnti Justine, verkefnastjóri GFF, verkefnið á einum hálfsmánaðarlegra hádegisfyrirlestra okkar. Þar var sagt frá hinum ýmsu þáttum verkefnisins og samstarfsfélögum gefið tækifæri til þess að spyrja spurninga. Fyrirlesturinn var vel sóttur og voru áhorfendur áhugasamir og spurðu spurninga.
Grænir Frumkvöðlar Framtíðar vekja líka áhuga utan fyrirtækisins. Sjónvarpsstöðin N4 er að vinna að sjónvarpsþátt um Græna Frumkvöðla Framtíðar. Kvikmyndatökumenn frá þeim hafa annars lagið komið og tekið upp myndefni á meðan verkefninu stendur. Núna í mars komu svo fulltrúar N4 á skrifstofu Matís til þess að taka viðtöl við skipuleggjendur verkefnisins. Þar var farið yfir víðan völl og hlökkum við mikið til að sjá afraksturinn þegar þátturinn verður sýndur í haust.
Eitt af verkefnum GFF er að nemendur kynni sér frumkvöðlafyrirtæki í sinni heimabyggð. Nokkrir nemenda Grunnskóla Bolungarvíkur heimsóttu fyrirtækið Kalksalt á Flateyri. Sú heimsókn virðist hafa tekist vel og fengum við afar skemmtilegt myndband sent, sem má sjá á instagramsíðu fyrirtækisins. Fyrirtækið notar salt frá fiskverkunum til þess að framleiða saltbætiefnatöflur fyrir búfénað. Auk þess að hafa lágt kolefnisspor, þá hefur kalksaltið góð áhrif á búfénaðinn. Það er mikilvægt fyrir nemendur að fá að sjá hvað er hægt að gera í heimabyggð og heimsóknir eins og þessar góð leið til þess.
Af framvindu verkefnisins er helst að frétta að það fer að styttast í MAKEathonið. MAKEathon er nýsköpunarkeppni, og fer fram á svipaðan hátt og önnur hakkaþon. Hugtakið er samsett úr hugtökunum maraþon og make (í. að gera). Það felur því í sér að nýsköpunarferlið er ekki spretthlaup, það er maraþon og því þarf að temja sér þrautseigju. Þátttakendur vinna saman í teymum sem keppast við að kynna lausn á ákveðinni áskorun með gerð einhverskonar frumgerðar (e. prototype). Áskorunin hefur verið skilgreind fyrirfram og tengist í þessu tilfelli því sem nemendur hafa lært með þátttöku í verkefninu Grænir Frumkvöðlar Framtíðar. Lausnirnar eru svo kynntar fyrir dómnefnd á formi söluræða (e. pitch) sem metur þær og velur þá bestu. Áður en hún á sér stað munu kennarar og aðrir þátttakendur fá þjálfun í verklagi slíkra keppna og fer sú þjálfun fram á næstu dögum.