Fræðsluverkefnið Grænir Frumkvöðlar Framtíðar er farið á fullt í grunnskólunum þremur, Nesskóla í Neskaupstað, Grunnskóla Bolungarvíkur og Árskóla á Sauðárkróki. Sá síðastnefndi, Árskóli, er þessa dagana að vinna í Vinnustofu 2, en vinnustofur verkefnisins eru fjórar talsins. Vinnustofa 2 fjallar um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar. Meðal verkefna sem nemendur í 9. bekk Árskóla hafa lokið er tilraun sem sýnir áhrif súrnunar sjávar verða á kalkmyndandi lífverur. Tilraunin er afar einföld og fljótleg, en engu að síður skemmtileg og áhrifamikil. Í tilrauninni fylgjast nemendur með þeim áhrifum sem hátt sýrustig vatns getur haft á skeljar með því að bera saman skel sem lögð er í vatn annars vegar, og skel sem lögð er í edik hins vegar. Kennararnir í Árskóla ákváðu að slá tvær flugur í einu höggi og nýttu þetta gullna tækifæri til að kenna nemendum sínum skýrslugerð. Á myndunum sem við fengum sendar frá kennurunum Sigurlaugu og Gesti er ekki annað að sjá en að tilraunin hafi vakið lukku og tekist vel, auk þess sem skýrslugerðin er til fyrirmyndar. Þessi tilraun er ein af nokkrum sem finna má í námsefni Grænna Frumkvöðla Framtíðar, en samtals geymir verkefnabanki verkefnisins yfir 40 mismunandi verkefni, leiki og tilraunir.
En áhrif loftslagsbreytinga koma ekki aðeins fram hjá lífverum hafsins. Annað verkefni sem lýst er í námefninu innan Vinnustofu 2 er að það sem kallast „Reynslusögur sjómanna“. Um er að ræða viðtalsverkefni, þar sem nemendur taka viðtal við reynslumikinn sjómann og spyrja hann spjörunum úr. Fyrir utan það að fá dýrmæta innsýn inn í sjávarútveginn og líf sjómanna, þá er tilgangur verkefnisins einnig sá að að nemendur átti sig á því að hafið og umhverfi þess er síbreytilegt, bæði í tíma og rúmi, og að sjávarútvegurinn og samfélög hafa áður þurft að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og gert það með ágætum. Kennararnir í Árskóla brugðu því á það ráð að fá sjómanninn Guðmund Sveinsson til að koma og halda fyrirlestur fyrir krakkana. Þar ræddi hann m.a. um sjómannslífið, sjávarútveginn og áhrif loftlagsbreytinga á þær fiskitegundir sem skipta sjávarútveginn máli. Fyrirlesturinn þótti takast frábærlega og markmiðinu, að setja áhrif loftslagsbreytinga í stærra samhengi, var náð.
Við hlökkum til að geta sagt frá fleiri skemmtilegum verkefnum sem eiga sér stað innan skólanna og bíðum spennt eftir fleiri myndum og fréttum frá skólunum þremur.