Grænir Frumkvöðlar Framtíðar komnir í gírinn víða um land

Nú í lok árs er verkefnið Grænir Frumkvöðlar Framtíðar komið af stað í skólunum þremur. Til þess að hefja leika heimsóttu skipuleggjendur verkefnisins skólana þrjá og tóku stöðuna á nemendunum. Heimsóknirnar voru vel heppnaðar og höfðu bæði nemendur, kennarar og starfsfólk Matís gaman af.

Þátttökuskólarnir eru Árskóli á Sauðárkróki, Nesskóli í Neskaupsstað og Grunnskóli Bolungarvíkur. Það sköpuðust áhugaverðar umræður og voru nemendurnir bæði áhugasamir og fullir af eldmóði gagnvart hinum ýmsu umhverfismálefnum sem voru rædd. Í öllum skólunum þremur var líka farið í leiki og á myndinni má sjá nemendur keppa við hvorn annan í Lundaleikinum, en hann er einn af þeim 40 leikjum og verkefnum sem fylgja námsefni Grænna Frumkvöðla Framtíðar.

Verkefnið heldur svo áfram í skólunum á næstu vikum og mánuðum, og er útfærsla þeirra að stórum hluta í höndum kennaranna. Það verður því spennandi að sjá hvað kemur út úr verkefninu á hverjum stað. Við hjá Matís fylgjumst a.m.k. spennt með áframhaldinu. Sé ýtt á hlekkinn hérna að neðan má sjá stutta umfjöllun um stöðu verkefnisins á heimasíðu Matís.

Leave a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *