Eitt af því sem fylgir með verkefninu Grænir Frumkvöðlar Framtíðar er veggspjald. Veggspjaldið er til þess ætlað að leikjavæða (e. gamification) námsefnið. Leikjavæðing hefur verið að ryðja sér til rúms bæði innan skóla og stofnanna, en hugtakið snýr að framsetningu efnis, þar með talið námsefnis. Hugmyndin er sú að nota hugsunarhátt leikja, og þá sérstaklega tölvuleikja, til þess að virkja viðtakendur fræðsluefnisins.
Í tilfelli veggspjaldsins er hugmyndi sú að nemendur vinni sér inn merki fyrir að ljúka ákveðnum þáttum verkefnisins. Merkin eru til þess ætluð að árangur verkefnisins sé að einhverju leyti sýnilegur. Veggspjaldið hangir upp á vegg í skólastofunni þann tíma sem verkefnið er í gangi og því hafa krakkarnir alltaf fyrir augum hvað er búið sem og hve mikið er eftir. Þau gefa líka nemendahópnum færi að setja sér sameiginlegt markmið og hvetja þannig til samvinnu.
Nemendur fengu stutta kynningu á merkjunum eru áður en verkefnið hófst og gátu því ákveðið í sameiningu hver þeir vildu leggja áherslu á. Misjafnlega mikið þarf að hafa fyrir merkjunum en markmiðið er að hver hópur ljúki sem flestum. Einhver snúa að vinnu ákveðinna verkefna, önnur snúa að vitundarvakningu almennings, og sum snúa að ákveðnum verkþáttum verkefnisins. Þá gefst kennurum einnig tækifæri að útfæra fjögur merkjanna eftir eigin höfði eða í samstarfi við nemendahópinn.
Þegar ákveðið mörgum merkjum hefur verið safnað er mælt með að kennarar verðlauni hópinn á einhvern hátt, en stærstu verðlaunin yrðu að sjálfsögðu tækist nemendum að safna öllum merkjunum. Nánari útfærsla á því er þó alfarið í höndum kennara.