Á dögunum fékk verkefnið Grænir Frumkvöðlar Framtíðar umfjöllun á heimasíðu Matís. Þar er sagt frá hugmyndinni á bakvið verkefnið, markmiðum þess og þátttakendum. Hér fyrir neðan má sjá brot úr fréttinni en fréttina í heild sinni má lesa á heimasíðu Matís. Hlekk á fréttina má finna neðst á síðunni.
Þessa dagana dynja á okkur fréttir um hamfarir um allan heim þar sem talið er að breytingum í loftslaginu sé um að kenna. Myndir af skógareldum, skriðuföllum og flóðum sjást nánast daglega á sjónvarpsskjám landsmanna auk þess sem við heyrum fréttir af nýjustu skýrslu IPCC, sem felur í sér skýra viðvörun um þær hættur sem felist í yfirvofandi loftslagsbreytingum. Ungt fólk í dag horfir upp á þennan fréttaflutning nánast daglega og svokallaður loftslagskvíði er orðið þekkt fyrirbæri. Um þennan raunverulega og rökrétta kvíða, og allar tilfinningar sem honum fylgja, þarf að ræða, bæði heimavið og í skólum.
Loftslagsbreytingar eru ein helsta áskorun sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir og yngstu kynslóðirnar munu ekki fara varhluta af þeirri baráttu sem framundan er. Eitt áhrifaríkasta tólið í baráttunni við loftslagsbreytingar er að fræða og valdefla unga fólkið okkar og því er nauðsynlegt að virkja það og vekja áhuga þess á málefninu á fyrstu skólastigum. Einnig er gífurlega mikilvægt að ungt fólk fái tækifæri til að ræða tilfinningar sínar og kvíða þessu tengdu. Nemendur ættu ekki að þurfa að burðast einir með tilfinningar sínar heldur þarf að gefa þeim rými til að ræða þær við jafnaldra sína og um leið, beita aðferðum til að valdefla þau. Verkefnið Grænir Frumkvöðlar Framtíðar miðar að því að færa íslenskum grunnskólanemendum þá þekkingu, hæfni og hvatningu sem þarf til að finna lausnir við loftslagstengdum áskorunum framtíðar og hrinda þeim í framkvæmd, með sérstakri áherslu á hafið, lífríki hafsins og haftengda nýsköpun. Verkefnið mun einnig færa íslenskum grunnskólakennurum aðgengilegt kennsluefni, þekkingu og færni til að færa þetta mikilvæga málefni inn skólastofuna, þar sem áhersla verður lögð að fræðslu og valdeflingu.
Markmið verkefnisins eru því eftirfarandi:
- Að veita nemendum efstu bekkja grunnskóla öðruvísi og spennandi fræðslu um eðli og áhrif loftslagsbreytinga, með sérstakri áherslu á hafið, lífríki þess og sjávarútveg
- Að auka skilning nemenda á þeim áhrifum sem loftslagsbreytingar geta haft á þeirra nærumhverfi, hvort heldur sem er á umhverfið, efnahag eða samfélagið
- Að fræða nemendur um mikilvægi mótvægis- og aðlögunaraðgerða sem og áhrif og mikilvægi nýsköpunar- og tæknilausna í því sambandi
- Að gefa nemendum reynslu og innsýn inn í heim íslenskra frumkvöðla og nýsköpunar
- Að leggja grunn að frjóu og öflugu nýsköpunarstarfi á landsbyggðinni þar sem umhverfis- og loftslagsmál eru höfð í forgangi
- Að veita grunnskólakennurunum nýja þekkingu, tól og tækni til að fræða nemendur um loftslags- og umhverfismál, með beinni tengingu í nærumhverfi þeirra