Fræðsluverkefnið Grænir Frumkvöðlar Framtíðar hefur verið í undirbúning í sumar og haust, og fer fljótlega af stað í skólum. Verkefnið hefur það að meginmarkmiði að fræða íslenska grunnskólanemendur um loftslags- og umhverfismál og sjálfbærni, áhrif loftslagbreytinga á hafið og lífríki þess og ekki síst, möguleg áhrif á sjávarútveg og samfélagið. Verkefnið mun einnig miða að því að valdefla grunnskólanemendur á landsbyggðinni með því að fræða þau um mikilvægi nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi, ekki aðeins sem tól í baráttunni gegn loftslagsvandanum, heldur einnig fyrir þau sjálf og þeirra nærsamfélag. Þá er einnig markmiðið að vinna gegn loftslagskvíða sem sífellt verður algengari meðal barna og ungmenna.
Kennsluefnið
Ein helsta útkoma verkefnisins verður kennsluefni um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á hafið, lífríki hafsins, sjávarútveg og samfélög. Kennsluefnið, sem inniheldur m.a. kennsluleiðbeiningar, fróðleik, verkefni, leiki og tilraunir, er miðað að nemendum elstu bekkja grunnskóla og verður prufukeyrt í þremur grunnskólum skólaárið 2021-2022. Undir lok verkefnisins verður kennsluefnið gert aðgengilegt til niðurhals hér á heimasíðu verkefnisins.
Samstarfsaðilar
Verkefninu er stýrt af Matís. Þrír grunnskólar taka þátt og prufukeyra námsefnið veturinn 2021-2022 en það eru Grunnskóli Bolungarvíkur, Árskóli á Sauðárkróki og Nesskóli í Neskaupsstað. Aðrir þátttakendur eru Djúpið Frumkvöðlasetur, Fablab smiðjur á Sauðárkróki, Neskaupstað og Ísafirði, N4 sjónvarpsstöð, Cambridge University og Climate-KIC. Auk þess munu nokkur sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtæki taka þátt með því að bjóða krökkunum í vettvangsheimsókn: FISK seafood, Dögun rækjuverksmiðja, Arctic Fish, Eskja, Arnarlax og Laxar fiskeldi.
#graenirfrumkvodlar
Hafa samband
Katrín Hulda Gunnarsdóttir, verkefnastjóri | katrinh@matis.is